Verkfærakistan, opið námskeið fyrir kennara

Dagsetning:

22. febrúar 2022, 15:00 - 10. maí 2022, 17:30

Deila:
Bæta við í dagatal

Hefst 26. september. Kennt á mánudögum frá kl. 15:00 – 17:30

KVAN býður upp á námskeiðið Verkfærakistan fyrir kennara og annað fagfólk. Þetta er “opið” námskeið sem þýðir að allir geta tekið þátt, burt séð frá hvaða skóla þeir tilheyra.

Hagnýtt námskeið fyrir kennara og annað fagfólk til að vinna með hópa og einstaklinga í samskipta- og félagslegum vanda. Rannsóknir sýna að félagslegum vanda fylgja alvarlegar og jafnvel langvarandi neikvæðar afleiðingar fyrir börn á öllum aldri. Því er mikilvægt að skima fyrir félagslegum erfiðleikum og grípa inn í eins fljótt og auðið er. Til að svo megi verða þurfa kennarar og allir þeir sem vinna með börnum að hafa þekkingu og færni til að koma auga á börn í félagslegum vanda ásamt því að kunna árangursríkar aðferðir til að hjálpa þeim. Oft er þó ekki nóg að vinna eingöngu með einstaklinga heldur þarf að vinna með allan hópinn. Er það til að mynda nauðsynlegt í eineltismálum og ýmsum samskiptavandamálum. Þá er vandinn í mörgum tilfellum tengdur hópnum í heild en ekki einstaka börnum. Bestur árangur næst með markvissum langvarandi aðgerðum sem beinast annars vegar að einstaklingum og hins vegar að hópnum.

Námskeiðið hefur verið gríðarlega vinsælt á undanförnum árum og hafa yfir 1.300 kennarar og fagfólk tekið þátt í námskeiðinu.

Fyrir hverja
Verkfærakistan er fyrir starfandi kennara og annað fagfólk, eins starfsfólk frístundaheimila, félagsmiðstöðva, íþróttaþjálfara og aðra sem eru að vinna með börn, unglinga og ungt fólk.

Hvað get ég lært
Að loknu námskeiði ætti fagfólk að hafa öðlast verkfæri til að bera kennsl á og vinna með einstaklinga sem eiga í félagslegum vanda annars vegar og hópa sem glíma við samskiptavanda hins vegar. Einnig færðu tækifæri til að greina hvar vandinn liggur en hann getur verið fólginn í samskiptaerfiðleikum, ljótu orðfari, lélegum bekkjaranda, einelti, ágreiningi innan hópsins, lélegum vinnufrið og svo mætti áfram telja. Vandi einstaklinga getur verið vinaleysi, klaufagangur í samskiptum, höfnun, einelti, hegðunarvandi og önnur félagsleg vandamál. Dæmi um aðferðir og verkfæri sem þú færð á námskeiði Verkfærakistunnar eru vináttuþjálfun, notkun innri hvata, jákvæð leiðtogaþjálfun, afleiðingaaðferðin, vinna með gerendur, samvinnuleikir og samvinnuverkefni, reiðistjórnun, félagsfærniþjálfun og hópefli.

Skipulag
Námskeiðið samanstendur af 6 skiptum, tvær og hálfa klukkustund í senn. Kennt er frá klukkan 15:00-17:30. Inn á milli tímanna prófa þátttakendur aðferðirnar í sínum hópi og fá stuðning og handleiðslu í næsta tíma á eftir. Þátttakendur fá handbókina Verkfærakistan og fleiri verkfæri til að nota á námskeiðinu sem og við áframhaldandi vinnu.

Kennt á mánuudögum kl. 15:00-17:30.
Mánudagana 29. september, 10. og 31. október, 7. og 21. nóvember og 5. desember.
Námskeiðið fer fram í sal okkar að Hábraut 1a, 200 Kópavogi.

Þjálfari
Þjálfari á Verkfærakistunni er Anna Steinsen.

Verð
89.900 kr.

Styrkir
Hægt er að sækja um styrk fyrir námskeiðsgjöldum hjá stéttarfélögum. Kannaðu þinn rétt innan þíns stéttarfélags.

Vinsamlegast hafið samband við okkur hjá KVAN í síma 519 3040 eða á netfangið kvan@kvan.is til þess að fá nánari uppslýsingar.