Vanda er með meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði og leggur nú stund á doktorsnám þar sem viðfangsefnið er einelti. Vanda starfar nú sem lektor í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Sérsvið hennar við Háskólann er einelti og tómstunda- og leiðtogafræði.

Vanda er frá Sauðárkróki, fædd 1965 en býr nú í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum. Vanda hefur allan sinn starfsferil starfað með börnum og fullorðnum að eineltis- og samskiptamálum. Þá hefur hún einnig starfað sem knattspyrnuþjálfari í um 30 ár.

Vanda er fyrrverandi formaður Knattspyrnusambands Íslands og sinnti því hlutverki til febrúar 2024.

Vanda er eina konan á Íslandi sem hefur þjálfað meistaraflokk karla í fótbolta, fyrsta konan sem þjálfaði kvennalandsliðið í fótbolta og lék hún bæði með landsliðinu í fótbolta og körfubolta.

Vanda fékk Fálkaorðuna 1. janúar 2021 fyrir störf að jafnréttismálum, kvennaknattspyrnu og fyrir baráttu gegn einelti.

Vanda hefur á undanförnum árum verið með fræðslu og námskeið fyrir meira en 10.000 börn, foreldra og fagfólk. Draumur hennar er að öll börn útskrifist úr grunnskóla sem góðar manneskjur, með bros á vör, góða vini og góðar minningar.