Telma Fanney Magnúsdóttir, þátttakandi á KVAN fyrir fullorðna

Ég ákvað að skella mér á helgarnámskeið fyrir fullorðna hjá Kvan um daginn eftir langa umhugsun og innri baráttu við sjálfa mig & ,,þægindarammann‘‘. Ég gæti hreinlega ekki verið ánægðari með þá ákvörðun að hafa skellt mér, námskeiðið fór algjörlega framúr öllum mínum væntingum. Ég lærði svo mikið um mig sjálfa, mína styrkleika og lærði að bera kennsl á mína dýpstu drauma og þrár. Framsetningin á námskeiðinu fannst mér til fyrirmyndar og höfðaði svo mikið til mín. Þar sem hver og einn nemandi leitar inn á við og finnur kraftinn ,,sinn‘‘ og vinnur út frá því, í stað þess að miða sig við aðra og þeirra styrkleika. Ég stóð uppi í lok námskeiðsins full af krafti, von, eldmóð & stolti. Ég fattaði að mér finnst bara soldið gaman að tala fyrir framan fólk og deila mínum sögum og reynslu með öðrum. Ég hef alla tíð talið sjálfri mér trú um það að ég sé sko alls ekki sú týpa sem finnst þægilegt og gaman að koma fram og tala fyrir framan stóran hóp af fólki. Mér fannst þetta alltaf vera ,,veikleiki‘‘ í mínu fari og dáðist af fólki sem var ófeimið að koma fram og halda ræður. Á Kvan námskeiðinu fórum við svo í mikla sjálfsskoðun og ég sá sjálfa mig í talsvert öðru ljósi. Í stað þess að mæta þessum ,,veikleikum‘‘ mínum með niðurrifi og hörku, lærði ég að sýna mér og minni reynslu skilning og kærleik. Ég fattaði að ég er bara nákvæmlega eins og ég á að vera einmitt í þessu andartaki og fattaði þessa helgina að ég bý yfir fullt af styrkleikum og góðum kostum sem ég hafði ekki veitt mikla athygli fram að þessu, því ég var bara að einblína á það sem ég ,,hef ekki‘‘. Námskeiðið gaf mér því ótrúlega mikilvægar gjafir eins og meira sjálfsöryggi, von og styrkinn til að leyfa mér að finna og stíga inn í kraftinn minn. Það voru algjör forréttindi að fá að sitja þetta námskeið undir leiðsögn Önnu, hennar nálgun er alveg einstök. Hún náði að halda athygli manns ALLAN tímann og var með fullkomið jafnvægi í kennslunni. Anna náði manni alveg ótrúlega djúpt í mikla sjálfsskoðun, ýtti manni vel út fyrir þægindarammann og lét manni líða ótrúlega öruggum í leiðinni. Síðan skemmdi alls ekki fyrir hvað hún er sjúklega fyndin & skemmtileg og gat fengið allan hópinn í hláturskast á núll einni. Ég segi bara TAKK fyrir mig Kvan & ég hlakka til að koma aftur á annað námskeið sem allra fyrst!