Embla Björg, þátttakandi á KVAN 13-15 ára
„Vá, maður veit varla hvar maður á að byrja að lýsa svona æðislegri fyrirmynd. Elva nær mjög vel til allra krakkanna og unglinganna í Kvan og mér fannst hún breyta miklu í lífi mínu og hafa stór áhrif á mig og framtíð mína. Verkið sem hún tekur að sér, að vera þjálfari í Kvan er mjög mikilvægt enda leggur hún sig alla fram. Elva gaf mér von um að allt skyldi einhvern veginn ganga upp í framtíðinni með því að segja okkur frá tilfinningum sínum þegar hún var unglingur. Ég tengdi við lýsingar hennar á kvíða og þunglyndi og uppgötvaði það að einhver annar hafi upplifað það sama og ég. Bara það að vita að einhver hefur gengið í gegnum það nákvæmlega sama og þú er svo miklu betra en að hlusta á foreldra sína segja manni að þau skilji. Því það gera þau alls ekki ef þau vita ekki hvernig manni líður. Stundum er erfitt að tala um þungar tilfinningar, meira að segja við fólkið sem manni er annast um en Elva gerir það svo miklu léttara þótt að ég hafi ekki þekkt hana nærri jafn lengi. Ég sá svo hvað hún endaði sem svakalega stór og frábær persóna þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum svona marga erfiðleika og niðursveiflur sem ég og aðrir unglingar upplifa kannski svipað. Elva fær mann til að vilja hlusta á hana endalaust því hún nær að bera tilfinningar sínar svo ótrúlega vel fram. Hún ber virðingu fyrir öllum. Enginn er mikilvægari en annar að hennar sýn. Elva nær að snerta við mörgum og er að gera stóra breytingu í lífi ungs fólks. Starf hennar er mikilvægt og hún nær því svo vel. Hún sýnir skilning og leggur sig alla fram í verkið. Svo það sem skiptir allra mestu máli, að henni finnst starfið skemmtilegt, að sjá unglinga blómstra og að henni þykir annt um þá sem eru í Kvan. Elva er fyrirmynd.”