Úti-KVAN

Útinám
Við hjá KVAN bjóðum upp á heildstæða þjónustu sem styður fagfólk, foreldra og stofnanir til að vinna markvisst með útinám og útivist í starfi. Í boði eru fyrirlestrar, námskeið, námsferðir og ráðgjöf varðandi stefnumótun og greiningu á möguleikum í nærumhverfinu. Útivera barna og ungs fólks er okkur sérstaklega hugleikin og við teljum mikla þörf á samfélagslegri vakningu á þessu sviði. Við leitum ýmissa leiða við að auka vitund fólks um gildi útiveru og tengsla fólks við náttúruna.
Fræðsla fyrir starfsfólk
Við sníðum námskeið eftir þörfum fagfólks en höfum t.d. í boði námskeiðið Útinám í skólastarfi. Einnig bjóðum við upp á fyrirlestra fyrir starfshópa. Sérstaða KVAN er að við höfum í boði námsferðir erlendis með sérstaka áherslu á útimenntun. Við förum m.a. farið í námsferðir með áherslu á útimenntun til Edinborgar, London og Toronto þar sem við eigum kost á að vinna með þarlendum sérfæðingum á sviði útimenntunar. Ef áhugi er á að fara með starfshópinn í námsferð erlendis fáið þá tilboð frá KVAN Travel.
Fræðsla fyrir foreldra
Foreldrar standa oft fram fyrir þeirri áskorun að finna leiðir til að koma börnum út að leika eða að njóta þess að vera úti í náttúrunni. KVAN býður upp á fyrirlestra um útiveru fyrir foreldrafélög. Í samvinnu við foreldrafélög, þá getur leikjaþjálfari frá KVAN mætt í hverfið til að koma af stað útileikjum – Við köllum það Úti að leika! Við bjóðum einnig upp á Útivistarpepp fyrir skóla, þar sem við erum með fræðslu fyrir börnin í skólanum fyrir hádegi (stigskipt fyrir yngsta, mið og elsta stig) og hnitmiðaða fræðslu fyrir foreldra um kvöldið.
Ráðgjöf
Breytt tengsl fólks við náttúru og minnkandi útivera er ein stærsta áskorun samtímans.Á Íslandi eru fjölbreyttir möguleikar til að vinna markvisst með útinám og útivist í skóla- og frístundastarfi. Til þess að ná árangri til lengri tíma litið þarf að standa faglega að verki og vinna markvisst eftir skýrri stefnu og greina þá möguleika sem eru í nærumhverfinu.
Allt KVAN teymið er meðvitað um gildi útiveru í okkar starfi og tveir sérfræðingar í teyminu leiða Úti-KVAN. Það eru Dr. Jakob Frímann Þorsteinsson eigandi og þjálfari og Hrafnhildur Sigurðardóttir kennari.
Ef óskað er eftir ráðgjöf hafið samband við KVAN í gegnum netfangið kvan@kvan.is eða beint á Jakob F. Þorsteinsson, jakob@kvan.is